154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

stefna um stuðning Íslands við Úkraínu 2024--2028.

809. mál
[18:23]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Hér erum við í 2. umræðu um mál sem er ótrúlega mikilvægt mál og fjallar um stuðning Íslands við Úkraínu vegna þessa ólögmæta og gjörsamlega óréttlætanlega innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu. Ég tel ótrúlega mikilvægt að við styðjum við Úkraínu í þeirri erfiðu varnarbaráttu sem þeir eiga í um þessar mundir og ég vil halda því mjög skýrt til haga. Ég hef verið ötull talsmaður þess hér á landi og á alþjóðavettvangi að við komum á sérstökum dómstól til að rétta yfir Pútín og fylgismönnum hans fyrir að hafa skipulagt þetta innrásarstríð, fyrir að hafa framið glæp allra glæpa sem er glæpurinn gegn friði eða „the crime of aggression“ á ensku.

Ég tel ótrúlega mikilvægt að við beitum öllum friðsamlegum tækjum sem við höfum til þess að styðja við Úkraínu. Hvers vegna segi ég friðsamlegum? Vegna þess að við erum herlaus þjóð. Við höfum lagt mikið upp úr því þótt okkur hafi ekki auðnast að halda okkur frá því að styðja við innrásina í Íran t.d. og þó að við séum vissulega hluti af NATO, sem ég var að segja að er öryggisbandalag og mér finnst mjög skrýtið að kalla það friðarbandalag eins og hv. formaður utanríkismálanefndar gerði rétt í þessu. NATO er ekki friðarbandalag, það er það ekki. Það er varnarbandalag, það er öryggisbandalag en það er ekki friðarbandalag. Þó að það kjósi kannski stundum að líta þannig á þá réðst NATO inn í Afganistan, á þjóð sem hafði ekkert til saka unnið og gerði það undir því yfirskyni að um sjálfsvörn væri að ræða. Þetta var auðvitað engin sjálfsvörn gagnvart Afganistan, virðulegi forseti. Þannig að nei, NATO er ekki friðarbandalag og ég hef mínar athugasemdir og efasemdir um hvort NATO hafi endilega verið afl til góðs í heiminum.

Það breytir því ekki að við erum hluti af NATO og NATO er mjög mikilvægur hluti af okkar öryggisstefnu og vörnum og þannig get ég alveg skilið þessa tilvísun sem ég sé í greinargerð með þessari tillögu um að það þyki einhvern veginn rosalega pólitískt sniðugt að setja fullt af peningum í kaupa hergögn fyrir Úkraínu. Það sem ég hef verið að benda á er að það eitt og sér réttlætir ekki að við séum að setja fullt af peningum í að kaupa hergögn fyrir Úkraínu vegna þess að okkar yfirlýsta stefna hefur verið að beita okkur fyrir friðsamlegum lausnum. Það er ekki að beita sér fyrir friðsamlegum lausnum að kaupa hergögn, það er það ekki. Þess vegna fannst mér þetta eiga skilið ríkari umræðu en það hefur fengið. Mér fannst þetta eiga skilið að fá athygli þeirra sem hefðu verið kallaðir til umsagna ef það hefði verið ákveðið að kalla til umsagna. Og ég frábið mér það að ég hafi verið að gera málsmeðferðina innan utanríkismálanefndar tortryggilega þótt ég geri athugasemd við hana. Þar er bara ekki líku saman að jafna, að gera athugasemd við að eitthvað sé ekki eins og það á að vera er ekki það sama og að gera það tortryggilegt, að láta það líta út eins og eitthvað annarlegt búi þar að baki eða að nefndarmönnum utanríkismálanefndar hafi gengið eitthvað annarlegt til með því að óska ekki eftir umsögnum. Ég tel ekki svo vera og ég var ekki að halda því fram.

Ég tel hins vegar óeðlilegt og ekki rétta málsmeðferð, ekki góða þinglega meðferð að taka stjórnartillögu frá núverandi forsætisráðherra — sem er auðvitað kominn hingað, ég sé hann reyndar enn þá fyrir mér í fyrra sæti og hann átti raunar erfitt með að muna það sjálfur í morgun eða í dag og settist í vitlaust sæti, en þáverandi utanríkisráðherra — sem á að fá almennilega þinglega meðferð, það er bara þannig. Stjórnartillögur á að senda til umsagnar. Það er alveg sama hvort nefndin sem fær það er afskaplega sammála stjórnartillögunni, það hefur bara ekkert með það að gera. Í afmörkuðum tilvikum gæti talist rétt að senda mál ekki til umsagnar þegar og ef þetta er nefndarmál, mál að frumkvæði nefndar, sem er talin ástæða til að bregðast hratt við og eru oftast einhvers konar lagfæring, það gleymist að setja inn einhverja dagsetningu, oft í fjárlög, það kemur mjög oft fyrir með fjárlög, eða eitthvað slíkt. Þetta eru einhverjar leiðréttingar sem liggja bara beint við; þetta stóð til en það klikkaði einhvern veginn af því að okkur lá svo mikið á eins og venjulega og við þurfum bara að redda þessu. Í þannig málum finnst mér alveg réttlætanlegt í flestum tilfellum að kalla ekki eftir umsögnum en ekki í svona máli, virðulegi forseti. Þetta er mál sem á skilið að almenningur segi álit sitt á því og að félagasamtök segi álit sitt á því. Ég bara skil ekki hvernig var hægt, þar á meðal er minn eigin nefndarmaður, að komast að þeirri niðurstöðu að þetta væri góð hugmynd. Ég skrifa það kannski mögulega á ákveðið reynsluleysi innan utanríkismálanefndar. Það gæti verið.

Af þessum sökum, virðulegi forseti, vil ég óska eftir því að þetta mál fari aftur inn í utanríkismálanefnd og verði sent til umsagnar og óska eftir því að skrifstofa Alþingis fari yfir það hvort þetta hafi verið rétt málsmeðferð í þessu máli, burt séð frá því hversu mikil eining var innan nefndarinnar um það vegna þess að ég tel þetta bara, eins og ég segi, ekki eðlilegt. Þar með er ekki sagt, svo að ég endurtaki það nú svo að það sé ekki snúið út úr, að ég sé ekki sammála þessari tillögu eða að mér finnist þetta eitthvað tortryggilegt eða að það sé einhver vondur hugur þarna að baki, að það standi til að gera eitthvað með vondum hug. Það er ekki svo, virðulegi forseti, en ég ber það mikla virðingu fyrir hinu þinglega ferli að mér finnst ótrúlega mikilvægt að senda mál til umsagnar, að almenningur hafi rétt á að koma sínum ábendingum varðandi þau mál sem fara hérna í gegn á framfæri, að ég tel þetta ekki réttlætanlegt sama hvað allir í utanríkismálanefnd eru sammála um þessa tillögu. Ókei, núna er ég búin að segja þetta. Ég þurfti að koma þessu frá mér.

Varðandi Úkraínu, virðulegi forseti, þá er það auðvitað svo og mig langaði að svara spurningum sem hafa komið fram frá hv. þm. Jakobi Frímanni Magnússyni um hvort NATO hafi á einhvern hátt skapað þessar aðstæður. Þetta segir hann að sé ekki sín skoðun heldur komi víðs vegar fram, að Rússland hafi í raun neyðist til að ráðast inn í Úkraínu vegna þeirrar ógnar sem þeim stafaði af NATO sem hafði gerst allt of kræft. Við heyrum þetta víða. Ég verð að segja að þetta er sambærileg röksemdafærsla og að saka konur um að hafa kallað eftir því að verða fyrir kynferðisofbeldi vegna fatanna sem þær klæddust. Þetta er nákvæmlega sama vegna þess að burt séð frá því hvað Rússlandi finnst þá geta þeir ekki beitt fyrir sig þjóðaréttinum. Þeir geta ekki beitt fyrir sig neinu sem heitir réttlæting þegar kemur að þessu vegna þess að það var ekki um bráða hættu á innrás að ræða. Þeir geta ekki réttlætt þetta þannig, það bara virkar ekki þannig og þetta er eins og að segja að kona hafi verið í of stuttu pilsi og hún geti því bara sjálfri sér um kennt að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi.

En staðan er þessi: Rússland hefur ráðist inn í Úkraínu. Rússland hefur rænt úkraínsku börnum. Rússland hefur framið, og þá er ég að tala um rússneska herinn og rússneska málaliða eða málaliða á vegum rússneskra yfirvalda, ótal stríðsglæpi. Þeir hafa miðað sínum eldflaugum á skotmörk sem á engan hátt geta talist hernaðarleg skotmörk, sem er alveg ljóst að tilheyra almennum borgurum, algerlega óréttlætanlegir glæpir. Ég hef komið til Úkraínu eftir að innrásin hófst. Ég hef farið til Bucha, ég hef farið til Irpin, ég hef séð fjöldagrafirnar sem voru grafnar. Ég hef heyrt sögurnar um líkin sem lágu á götunum dögum ef ekki vikum saman þangað til fólkið í þessum bæ tók sig saman við draga þau og koma þeim í skammtímagröf. Áður hafði sprengjuregnið og skothríðin verið svo stjórnlaus að það var ekki hægt að fara út til að koma þeim í jörð. Hryllingurinn sem hefur fylgt þessari innrás er ófyrirgefanlegur og hann þarf að hafa afleiðingar. Hann þarf að hafa ríkulegar og alvarlegar afleiðingar í för með sér gagnvart þeim sem bera ábyrgð á stríðsglæpunum og þá er ég að tala um hermennina sem fremja stríðsglæpi og þá sem skipulögðu glæp glæpanna, innrásina sjálfa, glæpinn gegn friði. Til þess þurfum við að koma á alþjóðadómstól sem tekur þetta fyrir vegna þess að öðruvísi náum við ekki lögsögu yfir Pútín um þennan glæp. Þannig liggur þetta bara varðandi alþjóðasáttmála og annað.

Tjónaskráin sem Ísland átti þátt í að setja á fót og raunar frumkvæði að er ótrúlega mikilvægur þáttur í þessu, þ.e. skrá yfir allt tjón sem Úkraínumenn hafa orðið fyrir, efnahagslegt tjón af völdum innrásarinnar, til að halda utan um það, gríðarlega mikilvægt verkefni. En við þurfum að sjá næsta skref sem er hver er að fara borga og hvernig á að borga fyrir allt þetta tjón. Þar hefur verið mikið í umræðunni að nota þær eignir sem hafa verið frystar og tilheyra rússneska ríkinu, hafa verið frystar víða á Vesturlöndum og annars staðar, til þess a.m.k. að vera dropi í hafið gagnvart þeim skaða sem hefur orðið. Þetta eru alveg töluverðar fjárhæðir og það er aðallega seinagangi í Evrópusambandinu að kenna að það gengur ekki nógu hratt og vel að koma þessu á koppinn. Það er miður vegna þess að það er alveg góður möguleiki á því að það taki við nýr forseti í Bandaríkjunum í nóvember og þá er vonin úti um að Bandaríkin verði með á þessu, ef Trump tekur við. Þannig að tíminn er naumur. Núverandi stjórn í Bandaríkjunum styður þetta eindregið og vill drífa sig af stað og klára þetta áður en kosningarnar eiga sér stað þannig að það er á okkur í Evrópu að klára þetta verkefni og er ótrúlega mikilvægt að gera það.

Ég held að það sé ótrúlega mikilvægt að styrkja og efla alla svokallað Magnitsky-löggjöf um alla Evrópu. Mér finnst eiginlega vanta í þetta einmitt þessa tillögu og hefði viljað eiga einhvern veginn betri umræðu um þessa tillögu og hvað væri hægt að gera til að bæta hana. Magnitsky-löggjöf er löggjöf sem var komið af stað víðs vegar um Evrópu og í Bandaríkjunum og gengur út á að beita persónubundnum þvingunaraðgerðum, alþjóðlegum þvingunaraðgerðum, þ.e. í ákveðnu landi er þvingunaraðgerðum beint gegn einstaklingum sem hafa gerst uppvísir að því að stunda eða hagnast á alvarlegum mannréttindabrotum í heimaríki sínu og sem eru ekki líklegir til eða hafa ekki þurft að sæta afleiðingum fyrir t.d. pyndingar eða morð jafnvel á pólitískum föngum o.s.frv. Það er t.d þessi Magnitsky sem var barinn til dauða í rússnesku fangelsi fyrir að hafa skoðanir og út af honum og í hans nafni hafa ótal margir embættismenn sem hafa staðið að þessu og vitað er að hafi átt þátt í dauða Magnitskys og aðrir sem hafa átt þátt í dauða og pyndingum ýmissa í Rússlandi þurft að sæta persónulegum þvingunaraðgerðum sem hafa haft gríðarleg áhrif. Raunar það mikil að þau ollu töluverðum titringi í kringum Pútín og það miklum að maðurinn sem var einn helsti stuðningsmaður og talsmaður þess á alþjóðavettvangi að beita Magnitsky-löggjöfum og setja þær á fót víðs vegar um Evrópu og í Kanada, í Bandaríkjunum og víðar, Vladímír Kara-Murza, var fangelsaður við komu sína til Rússlands og dæmdur í 25 ára fangelsisvist. Hann er þar í einangrunarklefa og búinn að vera síðan í september og er heilsa hans að versna mjög mikið, enda var hann þegar orðinn ansi heilsuskertur eftir tvær eitrunartilraunir.

Þetta er allt eitthvað sem við getum gert til þess að styðja beint við Úkraínu án þess að kaupa hergögn handa Úkraínu vegna þess að allt sem veikir Pútín og hans innsta hring er líklegt til að veikja innrásina í Úkraínu, bara til að halda því til haga. Það hefur líka farið af stað vinna við að finna börnin frá Úkraínu sem hefur verið rænt og farið með til Rússlands. Það er einhver vinna í gangi varðandi það en ég veit að það er komin ákveðin óþolinmæði gagnvart þeirri vinnu því að hún er ekki að ganga nógu hratt. Það þarf að styrkja Alþjóðadómstólinn og það þarf að styrkja Úkraínu í getu sinni til að rétta yfir þeim ótal mörgu stríðsglæpamönnum sem þau munu þurfa að rétta yfir í Úkraínu, rússneskum hermönnum sem fremja stríðsglæpi í Úkraínu. Í heimsókn minni þar ræddum við þetta mikið í dómsmálaráðuneytinu, í utanríkisráðuneytinu og við ríkissaksóknara Úkraínu og fleiri sem koma að þessum málum, hvað það vantar mikinn stuðning líka þegar kemur að t.d. réttarmeinarannsóknum og að geta skráð hvað gerist á vettvangi glæps og varðveislu sönnunargagna og að geta borið kennsl á illa farin lík. Alla þessa hluti vantar rosalega mikla aðstoð við. Þess vegna get ég ekki tekið undir að við séum einhver súkkulaði, eins og hv. formaður utanríkismálanefndar hélt hérna fram að við myndum vilja vera ef við myndum ekki borga fyrir hergögn fyrir Úkraínu. Ef við myndum styðja við nákvæmlega svona sérfræðiþjónustu og efla stuðning okkar við þjálfun í sprengjuleitarbúnaði og því hvernig maður finnur sprengju, sem við höfum verið að gera, og hersjúkrahúsið, þetta færanlega sjúkrahús sem við færðum þeim, formenn allra flokka, fyrir ekki svo löngu — þetta er allt gríðarlega mikilvægur stuðningur og ekkert einhverjar lopapeysur þótt þær séu líka góðra gjalda verðar. Þetta er auðvitað bara ótrúlega mikilvægur stuðningur og það ber ekki að gera lítið úr honum. Hann er að mörgu leyti ómetanlegur og varðveitist lengur en byssukúlur. Allt þetta er hægt að gera.

Ég verð líka, virðulegi forseti, að segja að Úkraína hefur brugðist við þessari innrás með ótrúlegu hugrekki og það sem ég hef alveg sérstaklega dáðst að við Úkraínu er virðing Úkraínu fyrir alþjóðalögum, virðingu Úkraínu fyrir mannúðarlögum, virðing þeirra fyrir Genfarsáttmálanum og meðvitund þeirra um mikilvægi þess frá sinni hálfu að þeirra hermenn virði Genfarsáttmálann, að þeirra hermenn standi vörð um hið alþjóðlega skipulag sem á að standa vörð um frið og réttlæti í heiminum. Ég verð að segja að mér finnst það rosalega aðdáunarvert vegna þess að auðvitað er það erfitt þegar þú verður fyrir innrás af þessu tagi að finnast þú þurfa að veita óvininum eitthvað sem hann veitir þér ekki, eins og virðingu fyrir Genfarsáttmálanum. En það er þannig með þessa sáttmála að þeir gilda burt séð frá því hvað hinn aðilinn gerir. Þeir eru ekki þannig að gagnkvæmni sé skilyrði í beitingu þeirra. Það er alls ekki svoleiðis.

Þess vegna, eftir að hafa sagt þetta, vil ég líka segja að ég vildi óska þess að við værum með jafn skýra stefnu þegar kemur að Gaza og minni á að þar hefur Ísrael alls ekki verið að standa sig gagnvart því að virða alþjóðasáttmála. Þótt það sé vissulega rétt að það hafi verið ráðist á þau og það sé vissulega rétt að til staðar sé réttur til sjálfsvarnar innan þjóðaréttar þá er það ekki svo að það þýði að það megi bara slátra heilu þorpunum á dag eða svelta fólk í hel.

Hér er mikið talað um í þessu áliti og í þingsályktunartillögunni sjálfri að Ísland eigi allt sitt, sjálfstæði sitt, fullveldi og getu til að lifa í friði, undir alþjóðakerfinu sem við búum við, undir því að þjóðaréttur sé virtur, undir því að fullveldi þjóða sé virt, undir því að þetta reglubundna alþjóðakerfi, sem við höfum kannski komist nálægt því að venjast að sé til staðar á undanförnum árum og vöknum upp við vondan draum, við eigum allt okkar sem sjálfstætt og fullvalda ríki undir því að þetta kerfi virki. Þess vegna, og ekki bara þess vegna heldur líka bara út af réttlætinu og öllu því, er ég heils hugar sammála því að við eigum að styðja við Úkraínu af öllum okkar mætti en með sömu rökum. Ég bara skil ekki hvers vegna það er ekki algild skoðun að við verðum að styðja við Palestínu betur en við höfum verið að gera, standa sterk gegn þeirri hungursneyð sem er þar af mannavöldum og því þjóðarmorði sem sannarlega er í uppsiglingu ef það er ekki hafið. Ég óska þess að það verði jafn mikil samstaða um það eins og um þessa tillögu.

Að þessu sögðu þá styð ég þessa tillögu heils hugar og styð Úkraínu í baráttu sinni fyrir frelsi og lýðræði af öllu hjarta.